Get in touch

555-555-5555

mymail@mailservice.com

Saga Smiley

Styrktarfélagið Broskallar eru félagasamtök (non-profit) sem var stofnað árið 2015 til að sjá um fjársöfnun til verkefnisins Menntun í ferðatösku (Education in a suitcase).


Verkefnið á uppruna í rannsóknaverkefni um vefstudda kennslu, en vefkerfið smiley-tutor (áður tutor-web) hefur verið notað við kennslu og sem rannsóknatæki um vefstudda kennslu á Íslandi og erlendis allt frá árinu 2004.


Árið 2012 hófst samstarf við nokkra aðila í Kenía en þau mæltu sérstaklega með því að fyrstu raunverulegu prófanir á kerfinu færu fram á eyjunni Takawiri í Viktoríuvatni, því þar hafa fæst hús rafmagn, ekki er aðgangur að Interneti og símasamband er afar lélegt. Ummælin voru "ef þetta gengur á Takawiri þá gengur þetta alls staðar".


Eyjan er dæmigert lágtekjusvæði og eru aðaltekjur fjölskyldna á Takawiri af fiskveiðum. Fá atvinnutækifæri eru til staðar og fyrir árið 2020 höfðu aðeins 3 nemendur frá eyjunni farið í háskólanám. Áherslan í Kenía þarf að vera á stærðfræði framhaldsskóla því hún stendur nemendum einna mest fyrir þrifum hvað varðar aðgang að háskólanámi. Fyrsta heimsókn styrktarfélagsins á eyjuna var árið 2016 og hafa verið farnar nokkrar ferðir síðan með spjaldtölvur fyrir nemendur.


Árið 2021 kláraði fyrsti árgangurinn sem tók þátt í verkefninu framhaldsskóla og eru 8 nemendur úr árganginum nú í háskóla. Ári seinna komust 7 nemendur frá eyjunni í háskóla.


Skólar í Kenía lokuðu í eitt ár í COVID faraldrinum og var þá brugðið á það ráð að vinna með bókasöfnum víðsvegar um Kenía. Námið fer því nú fyrst og fremst fram í bókasöfnum þar sem nemendur fá lánaðar spjaldtölvur og vinna í kennslukerfinu. Þar fá þau punkta, Broskalla, í samræmi við ástundun og árangur í kerfinu. Í bókasöfnunum geta þau notað Broskallana til að kaupa ýmsa nauðsynjavöru, svo sem mat og dömubindi, og jafnvel spjaldtölvuna sjálfa.


Nú þegar hafa um 1500 spjaldtölvur verið keyptar fyrir Broskalla í bókasöfnum í Kenía.


Share by: